Erlent

Ætlar ekki að senda herþotur á eftir Snowden

Boði Logason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á fundi í Senegal í morgun.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á fundi í Senegal í morgun. Mynd/Afp
„Ég er ekki að fara setja herþotur af stað til að góma tuttugu og níu ára gamlan hakkara," sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, við blaðamenn í Senegal í dag.

Forsetinn er í opinberri heimsókn í landinu næstu daga. Á fundinum var hann spurður út í bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden sem lak upplýsingum um stórfelldar njósnir Þjóðaröryggisstofunar Bandaríkjanna um almenning á Netinu.

Obama sagðist ekki hafa talað við forseta Kína og Rússlands vegna málsins og undirstrikaði að bandarísk yfirvöld myndu fylgja lagalegum leiðum til að sækja Snowden til saka.

Snowden lenti á flugvellinum í Moskvu á sunnudag, eftir að hann kom með áætlunarflugi frá Hong Kong. Vladimír Pútín, forseti Rússlandi, staðfesti svo við blaðamenn í Finnlandi í gær að Snowden væri enn á flugvellinum í Moskvu.

Snowden hefur sótt um pólitískt hæli í Ekvador og sagði Ricardo Patínó, utanríkisráðherra landsins, í gærkvöldi að það gæti tekið nokkra mánuði að afgreiða hælisumsókn uppljóstarans.

Sagði hann að yfirvöld í Ekvador væru tilbúin að veita Snowden vernd í einu af sendiráðum Ekvadors þar til umsóknin yrði tekin fyrir, en rússnesk yfirvöld segja að hann sé ekki vegabréfsáritun til að komast út af flugvellinum í Moskvu.

Snowden fer huldu höfði á flugvellinum í Moskvu og hefur enginn náð tali af honum. Þar dvelur hann ásamt Söru Harrison, starfsmanni WikiLeaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×