Erlent

Biðja fyrir heilsu Mandela

Fyrrverandi forseti Suður-Afríku og Nóbelsverðlaunahafi berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Pretoríu. 
nordicphotos/afp
Fyrrverandi forseti Suður-Afríku og Nóbelsverðlaunahafi berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Pretoríu. nordicphotos/afp AFP/NordicPhotos

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, dvelur illa haldinn á sjúkrahúsi í Pretoríu, höfuðborg landsins.

Samkvæmt stjórnvöldum þar í landi er ástand hans stöðugt. Mandela, sem er 94 ára, var færður á sjúkrahús snemma á laugardag vegna síendurtekinnar sýkingar í lungum. Seinna þann sama dag kom fram í yfirlýsingu frá stjórnvöldum að ástandið væri alvarlegt.

Eftir það heyrðist ekkert varðandi líðan Mandela fyrr en í gærmorgun.

„Ástand hans er óbreytt,“ segir í stuttri yfirlýsingu Jakobs Zuma forseta. Zuma ítrekar beiðni sína til landsmanna um að biðja fyrir Mandela og fjölskyldu hans.

Ættingjar Mandela heimsóttu hann á sjúkrahúsið á sunnudag. Dóttir hans, Zlenani Dlamini, sendiherra Suður-Afríku í Argentínu, flaug til föðurlands síns til þess að vera með föður sínum. Mandela hefur verið lagður inn á sjúkrahús nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum. Á sama tíma og þjóðin liggur á bæn spyrja fjölmiðlar í landinu sig hvort ekki sé kominn tími á að leyfa Mandela að fara.

Náinn vinur hans, Andrew Mlangeni, sagði í viðtali við fjölmiðla að nú gæti þjóðin þurft að kveðja sinn dáða fyrrverandi þjóðarleiðtoga. „Þú hefur verið lagður inn á sjúkrahús of oft. Það er augljóst að þú ert ekki heill og það er mögulegt að þú verðir aldrei heill á ný,“ sagði Mlangeni.

„Þegar fjölskyldan leyfir honum að fara, mun þjóðin fylgja. Við komum til með að segja þakka þér Guð, þú hefur gefið okkur þennan mann og við sleppum nú af honum takinu.“- ne




Fleiri fréttir

Sjá meira


×