Erlent

Bandaríkin hleruðu síma Merkel

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sími Angelu Merkel hefur verið á eftirlitslista síðan árið 2002.
Sími Angelu Merkel hefur verið á eftirlitslista síðan árið 2002. Mynd/AP
Bandarísk yfirvöld hafa hlerað síma Angelu Merkel þýskalandskanslara frá árinu 2002. Þetta kemur fram í þýska blaðinu Der Spiegel í gær.

Blaðið segist hafa séð leynileg skjöl frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, þar sem númer Merkel er fyrst skráð árið 2002, en það er áður en hún varð kanslari. Númer hennar er enn á eftirlitslista NSA fyrir þetta ár.

Málið hefur vakið mikla reiði í Þýskalandi, en ekki er ljóst hvernig hleruninni hefur verið háttað. Óvíst er hvort að símtöl Merkel hafi verið tekin upp eða einfaldlega haldin skrá yfir þau.

Yfirmenn þýsku leyniþjónustunnar fara til Washington í næstu viku til að funda um málið með bandarískum yfirvöldum. Það var uppljóstarinn Edward Snowden sem upplýsti almenning um leynistarfsemi NSA fyrr á árinu. Hann dvelur nú í Rússlandi, þar sem hann er með tímabundið pólitískt hæli.

Fjallað var um málið á vef BBC í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×