Gylfi Þór Sigurðsson skoraði dýrmætt jöfnunarmark fyrir Tottenham í 2-2 jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.
Annan leikinn í röð kom Gylfi hvítklæddum liðsfélögum sínum til bjargar með jöfnunarmarki. Hann skoraði glæsilegt mark og jafnaði metin í Evrópudeildinni gegn Basel á White Hart Lane á fimmtudagskvöldið. Hann var svo réttur maður á réttum stað gegn Everton í gær eftir að skot Emmanuel Adebayor small í stönginni.
Þetta var annað mark Gylfa Þórs í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom inná sem varamaður og skoraði í 3-2 útisigri gegn West Ham í lok febrúar. Þá jafnaði Gylfi einmitt metin í 2-2. Á svipaðan hátt og gegn Everton í gær var Gylfi með markanefið á lofti á fjærstönginni og skoraði auðvelt mark.
Gylfi hefur því þrívegis skorað mikilvægt mark og jafnaði metin í 2-2 á tímabilinu. Auk þess hefur Gylfi skorað eitt mark í deildabikarnum og tvívegis til viðbótar í Evrópudeildinni.
Það er vonandi fyrir Tottenham að Gylfi haldi uppteknum hætti á fimmtudaginn þegar liðið sækir Basel heim. Liðið verður líklega án Gareth Bale og Aaron Lennon í leiknum.
Mörkin úr jafntefli Spurs og Everton má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Enn jafnar Gylfi í 2-2
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mest lesið




Sárt tap gegn Dönum á HM
Handbolti


Leik U21 liðs Man United hætt vegna meiðsla leikmanns
Enski boltinn


Stuð á Víkingum í Kaupmannahöfn
Fótbolti

