Erlent

Stjórnarkreppa blasir við á Ítalíu

Stjórnarkreppa blasir við á Ítalíu í kjölfar þingkosninganna þar sem lauk í gærkvöldi.

Enn er of snemmt að segja til um úrslitin í kosningunni til öldungadeildar þingsins þrátt fyrir að aðeins eigi eftir að telja þau atkvæði sem greidd voru erlendis.

Bandalag vinstrimiðjumanna undir forystu Piers Luigis Bersani vann nauman meirihluta í fulltrúadeild þingsins, fékk 29,54% atkvæða á móti 29,18% hjá hægrabandalagi Silvio Berlusconi fyrrum forsætisráðherra.

Eins og staðan er núna gæti bandalag Berlusconi unnið mjög nauman meirihluta í öldungadeildinni og þá blasir stjórnarkreppa við þar sem ekki er hægt að mynda ríkisstjórn án þess að hafa meirihluta í báðum deildum. Þar með eru töluverðar líkur á því að kosið verði að nýju innan skamms.

Fimmstjörnuflokkur gamanleikarans Beppe Grillo er sigurvegari kosninganna en flokkurinn hlaut 25% atkvæða í fulltrúadeildinni, Beppe er ítalska útgáfan af Jóni Gnarr en hann vill meðal annars taka upp líruna að nýju í stað evrunnar.

Miðjubandalag Mario Monti hlaut aðeins 9% atkvæða.

Náið hefur verið fylgst með þessum kosningum um allan heim og hafa þær valdið töluverðum niðursveiflum víða á fjármálamörkuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×