Erlent

Sigur Rowhanis vekur bæði bjartsýni og ugg

Sigur Hasans Rowhani í forsetakosningum í Íran á föstudaginn kom á óvart.
Sigur Hasans Rowhani í forsetakosningum í Íran á föstudaginn kom á óvart.
Hinn nýkjörni forseti Írans, Hasan Rowhani, á erfitt verk fyrir höndum. Hann sagði í gær að efnahagsvandi þjóðarinnar yrði ekki leystur á einni nóttu, enda er verðbólgan um þrjátíu prósent og atvinnuleysi fjórtán prósent.

Í ofanálag er hann í andstöðu við ríkjandi öfl klerkastéttarinnar sem fara með kjarnorkumál, varnarmál og utanríkismál. Þau hafa þó lýst yfir vilja til að samstarfið við nýja forsetann verði farsælt.

Rowhani sigraði örugglega í kosningunum á föstudaginn, sem kom nokkuð á óvart þar sem hann er almennt talinn umbótasinni.

Kosning hans hefur valdið nokkrum titringi hjá Ísraelsmönnum og varaði forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, við því í gær að alþjóðasamfélagið slakaði á þrýstingnum gagnvart kjarnorkustefnu Írans, þrátt fyrir að Rowhani væri álitinn umbótasinni.

Kosning hans virðist þó þegar vera farin að hafa áhrif á viðhorf umheimsins því á vefsíðu kauphallarinnar í Teheran kom í gær fram að gengisvísitala hlutabréfa hefði stigið um 1.194 stig fyrir lokun í hádeginu í gær, sem er 2,5 prósenta hækkun frá því á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×