Erlent

Grínistinn Grillo í lykilstöðu

Nærri fimmti hver kjósandi greiddi Fimm stjörnu hreyfingu hans atkvæði sitt.
Nærri fimmti hver kjósandi greiddi Fimm stjörnu hreyfingu hans atkvæði sitt. fréttablaðið/AP
Bandalag vinstri- og miðjuflokka hlaut flest atkvæði í kosningum til neðri deildar Ítalíuþings. Þeir höfðu ríflega 30 prósent þegar búið var að telja um þrjá fjórðu atkvæða í gærkvöldi. Hægri flokkarnir, með hinn umdeilda Silvio Berlusconi í fararbroddi, voru þá með um 28,5 prósent.

Berlusconi virtist hins vegar ætla að fá heldur fleiri atkvæði en Pier Luigi Bersani í kosningum til öldungadeildar þingsins og getur því staðið í vegi fyrir myndun starfhæfrar vinstri stjórnar.

Það er hins vegar skemmtikrafturinn Beppo Grillo sem kominn er í lykilstöðu, því hin nýstofnaða Fimm stjörnu hreyfing hans hlaut nærri tuttugu prósent atkvæða í neðri deild og um 25 prósent í efri deildina. Grillo er kjaftfor grínisti og hefur ekki boðað skýra stefnu heldur notað kosningabaráttuna til að úthúða flokkunum sem fyrir eru.

Flokkur Marios Monti forsætisráðherra fékk aðeins tíu prósent atkvæða, eins og spáð hafði verið. Nái Bersani, leiðtogi vinstri flokkanna, nægum þingstyrk fær hann væntanlega Monti til liðs við sig, því Bersani hefur boðað framhald á þeirri ströngu aðhaldsstefnu sem Monti stóð fyrir. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×