Erlent

Misþyrmingar í svínabúi náðust á myndband

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í myndbandinu má sjá starfsmenn svínabúsins beita dýrin margvíslegu ofbeldi.
Í myndbandinu má sjá starfsmenn svínabúsins beita dýrin margvíslegu ofbeldi.
Tyson Foods, stærsti kjötframleiðandi Bandaríkjanna, hefur slitið samstarfi sínu við svínabú eftir að dýraverndunarsamtökin Mercy For Animals birtu myndband af viðurstyggilegu ofbeldi gegn svínunum. Starfsmaður samtakanna vann á svínabúinu í september og október og tók myndbandið.

Í myndbandinu, sem birt var í síðustu viku, má sjá starfsmenn svínabúsins kýla svínin og sparka í þau, berja þeim utan í steypt gólf, kasta þeim og skilja þau eftir í blóði sínu.

„Við munum ekki umbera þá illu meðferð sem sést í myndbandinu,“ segir Gary Mickelson, talsmaður Tyson Foods, í yfirlýsingu, og segir hann að samningum við svínabúið verði rift þegar í stað og dýrin verði flutt annað.

Eigandi svínabúsins sagði í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina að starfsmennirnir sem sjást í myndbandinu hafi verið reknir, en fyrrnefnd dýraverndunarsamtök hafa farið fram á að mennirnir verði kærðir.

Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan, en rétt er að taka það fram að það sýnir hryllilegt ofbeldi gegn dýrum og er alls ekki fyrir viðkvæma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×