Erlent

Báðu um aðra tilraun til lendingar sekúndu fyrir slysið

Boði Logason skrifar
Lögreglumaður skoðar svarta kassann úr vélinni.
Lögreglumaður skoðar svarta kassann úr vélinni. mynd/afp
Upplýsingar úr svarta kassanum í flugvél Asian flugfélagsins, sem hrapaði í San Francisco um helgina, sýna að flugstjórinn bað flugturninn um aðra tilraun til lendingar stuttu fyrir brotlendinguna.

Vélin, sem er af gerðinni Boeing-777, hrapaði á alþjóðaflugvellinum í San Francisco á laugardagkvöld. Tvær kínverskar unglingsstúlkur létust, og 181 slasaðist - þar af 49 alvarlega.

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur reynt að komast til botns í því hvað það var sem olli því að vélin klessti á varnargarð við enda flugbrautarinnar.

Boeing flugvélaframleiðandinn gaf það út í gærmorgun að ekki hafi komið upp vélarbilun í vélinni, og þá sögðu forsvarsmenn flugfélagsins að flugstjórinn og flugmaðurinn væru afar reyndir og hefðu ekki gert nein mistök þegar vélin kom inn til lendingar.

Á blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar í gærkvöldi kom hins vegar fram, eftir að lögreglumenn höfðu farið yfir upplýsingar úr svarta kassanum, að flugstjórinn bað flugturninn um leyfi til þess að fá aðra tilraun til lendingar einni og hálfri sekúndu fyrir slysið. Í kjölfarið hafi hann gefið vélinni inn - en það hafi verið of seint. Hún klessti á varnargarð með þeim afleiðingum að stélið rifnaði af henni.

Flugmaðurinn og flugstjórinn verða yfirheyrðir á næstu dögum, ásamt öðrum áhafnarmeðlimum.

NBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×