Enski boltinn

Liðsmenn United klúðrað sjö af síðustu tíu vítaspyrnum sínum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rooney skaut framhjá marki Arsenal í gær. Það var í fyrsta skipti sem United hitti ekki á markið af punktinum.
Rooney skaut framhjá marki Arsenal í gær. Það var í fyrsta skipti sem United hitti ekki á markið af punktinum. Nordicphotos/Getty
Wayne Rooney brást bogalistin af vítapunktinum í 2-1 sigri Manchester United á Arsenal á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í gær. Uppskera United manna hefur verið rýr á vítapunktinum en sjö af síðustu tíu vítaspyrnum liðsins hafa farið forgörðum.

Segja má að United menn hafi gefið tóninn fyrir það sem á eftir hefur fylgt í æfingaleik liðsins gegn Barcelona í Gautaborg 8. ágúst. Vítaspyrna Wayne Rooney í venjulegum leiktíma var varin af Victor Valdes og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Gripið var til vítaspyrnukeppni þar sem Jose Pinto varði báðar spyrnur United manna sem Ashley Young og Nani tóku.

Wayne Rooney bætti fyrir vítaspyrnuklúðrið í 4-3 sigri á Hannover sem var síðasti æfingaleikur liðsins fyrir tímabilið. Síðan hefur gengið skelfilega á punktinum en það hefur þó ekki orðið til þess að United menn hafi tapað stigum.

Kæruleysislegt víti Robin van Persie gegn Southampton var varið en Hollendingurinn bætti fyrir það með þremur mörkum í dramatískum 3-2 deildasigri 2. september.

Tveimur vikum síðar steig Javier Hernandez á punktinn í heimaleik gegn Wigan. Víti Mexíkómannsins var varið en United vann þægilegan 4-0 heimasigur.

Strax í vikunni á eftir fékk Nani ábyrgðina á punktinum í meistaradeildarleik gegn Galatasaray. Spyrna Portúgalans var varin en mark Michael Carrick dugði United til 1-0 sigurs.

Robin van Persie skoraði af punktinum í 2-1 útisigri gegn Liverpool í deildinni helgina á eftir og Ryan Giggs í 5-4 tapi United gegn Chelsea í deildabikarnum í síðustu viku.

30 prósent nýtingarhlutfall af vítapunktinum er ótrúlega lágt hjá einu stærsta félagsliði heims. Staðreyndin er hins vegar sú að ef frá eru taldar vítaspyrnurnar í æfingaleiknum gegn Barcelona hafa klúðrin ekki enn kostað United stig.

United skoraði úr níu af ellefu vítaspyrnum sínum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Vítin sem fóru forgörðum höfðu, líkt og í ár, engar afleiðingar í för með sér fyrir United. Liðið vann leikina.

Vítaspyrnur Manchester United á tímabilinu



United 0-0 Barcelona

Varið frá Rooney

Varið frá Young

Varið frá Nani

Hannover 3-4 United

Rooney skoraði

Southampton 2-3 United

Varið frá Van Persie

United 4-0 Wigan

Varið frá Hernandez

United 1-0 Galatasaray

Varið frá Nani

Liverpool 1-2 United

Van Persie skoraði

Chelsea 5-4 United

Giggs skoraði

United 2-1 Arsenal

Rooney skaut framhjá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×