Erlent

Bjóða þrjú kíló af gulli fyrir dráp

Öryggisgirðing á veginum að forsetahöllinni í Sanaa, höfuðborg Jemen. Fréttablaðið/AP
Öryggisgirðing á veginum að forsetahöllinni í Sanaa, höfuðborg Jemen. Fréttablaðið/AP
Deild Al-kaída í Jemen hefur lagt fé til höfuðs bandaríska sendiherranum í Sanaa og hermönnum Bandaríkjahers í landinu. Hverjum þeim sem tekst að drepa sendiherrann eða amerískan hermann er lofað tugþúsundum Bandaríkjadala.

Í hljóðvarpi sem al-Malahem-stofnunin, fjölmiðlunararmur Al-kaída-deildarinnar, sendi út á laugardag og birti á vefmiðlum er lofað þremur kílóum af gulli fyrir víg sendiherrans. Slíkt magn af gulli er 160 þúsunda Bandaríkjadala virði, eða sem svarar tæplega 21 milljón króna.

Þá er lofað fimm milljónum jemenskra ríala hverjum þeim sem drepur amerískan hermann í Jemen. Sú upphæð samsvarar 23 þúsund dölum, eða rétt tæpum þremur milljónum króna.

Boðið um greiðslu fyrir víg af þessu tagi er sagt gilda næsta hálfa árið.

Viðbrögð fengust ekki við hótuninni hjá sendiráði Bandaríkjanna í Sanaa þegar fréttastofa AP leitaði eftir þeim í gær. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa hins vegar sagst líta á deild Al-kaída í Jemen sem eina þá hættulegustu sem rekin er í nafni samtakanna.

Yfirmenn öryggismála í Sanaa upplýstu í gær að tveir vígamenn á mótorhjólum hafi snemma í gærmorgun ráðist á og drepið tvo starfsmenn leyniþjónustu landsins þar sem þeir yfirgáfu öryggisbyggingu í miðbæ borgarinnar. Þá er Al-kaída vígamönnum á mótorhjólum kennt um fjölda sambærilegra drápa á leyniþjónustumönnum og hermönnum fyrr á þessu ári. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×