Erlent

Vilja vopnaða verði í hvern einasta skóla

gudsteinn@frettabladid.is skrifar
Vopnin skoðuð Í Bandaríkjunum er byssueign almennings útbreiddari en í flestum löndum heims.	nordicphotos/AFP
Vopnin skoðuð Í Bandaríkjunum er byssueign almennings útbreiddari en í flestum löndum heims. nordicphotos/AFP
„Það eina sem getur stöðvað illmenni með byssu er góðmenni með byssu," segir Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri Landssamtaka bandarískra byssueigenda (NRA).

Hann skorar á Bandaríkjaþing að útvega án tafar fé til þess að hægt verði að ráða vopnaða verði í hvern einasta skóla í Bandaríkjunum. Þetta vonast hann til að verði orðið að veruleika strax eftir áramótin, þegar börnin koma aftur í skólana eftir jólafríið.

„Er einhver sem efast um að næsti Adam Lanza sé nú þegar byrjaður að undirbúa árás á næsta skóla?" spyr LaPierre, og segir að vopnaðir verðir séu við flugvelli, banka, skrifstofubyggingar, dómhús og jafnvel íþróttavelli.

„En þegar kemur að því mikilvægasta, sem er að verja börnin okkar, þá leggja stjórnmálamenn og fjölmiðlar áherslu á að skólarnir séu byssulausir, og segja þar með öllum brjáluðum morðingjum í Bandaríkjunum að öruggasti staðurinn til að valda sem mestum óskunda og tjóni séu skólarnir okkar."

Þetta eru viðbrögð samtakanna við fjöldamorðunum, sem hinn tvítugi Adam Lanza framdi í barnaskóla í Newtown á föstudag í síðustu viku. Þar myrti hann tuttugu börn ásamt kennurum, skólastjóra og sálfræðingi skólans.

Morðin hafa vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og sterkari kröfur en oft áður um að snúið verði af þeirri braut, að sem flestir geti verið með skotvopn heima hjá sér.

Barack Obama forseti sagðist í gær taka mikið mark á þeim kröfum. Hann ítrekaði að hann væri staðráðinn í að gera allt sem í sínu valdi stæði til að „vernda börnin okkar" með því að herða reglur um skotvopnaeign. Hann hvatti jafnframt almenning í Bandaríkjunum til að láta í sér heyra:

„Ef okkur á að takast þetta, þá þurfa mæður og feður, synir og dætur, lögregluþjónar og ábyrgir byssueigendur að leggja sig fram, bindast samtökum, láta í sér heyra, hringja í þingmenn sína eins oft og til þarf, standa upp og segja fyrir hönd barnanna okkar: Nú er nóg komið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×