Erlent

Þjarkað um loftslagsmál í Doha

Ban Ki-moon ásamt fleiri ráðstefnugestum.
Ban Ki-moon ásamt fleiri ráðstefnugestum. NORDICPHOTOS/AFP
„Enginn er ónæmur fyrir loftslagsbreytingum, hvorki fátækir né ríkir,“ sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á átjándu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er í Doha, höfuðborg Katar.

Hann sagði ríki heims vera í kapphlaupi við tímann og þyrftu nú að hraða viðbrögðum sínum, eigi að takast að draga nægilega mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda næstu áratugina.

Samningaviðræður eru hafnar á ráðstefnunni um nýjan loftslagssamning, sem á að taka gildi árið 2020, en auk þess er reynt að komast að niðurstöðu um að skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni, sem rennur út um áramótin, verði látnar halda áfram til bráðabirgða þangað til nýi samningurinn tekur við.

Nokkuð háværar deilur hafa verið á ráðstefnunni um loforð, sem auðugri ríki heims gáfu hinum fátækari fyrir þremur árum, þar sem lofað var að útvega fátækari ríkjunum fjármagn til að þau gætu bæði tekið í notkun umhverfisvænni orkugjafa og lagað sig að væntanlegum loftslagsbreytingum.

Fátækari ríkin segja hin auðugri ekki hafa staðið nægilega vel við þau loforð.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×