Erlent

Gengst við mistökum

Lögreglan kynnti innri rannsókn sína fyrir fjölmiðlum í gær. Lögreglustjórinn Øystein Mæland baðst afsökunar fyrir hönd lögreglunnar.
Lögreglan kynnti innri rannsókn sína fyrir fjölmiðlum í gær. Lögreglustjórinn Øystein Mæland baðst afsökunar fyrir hönd lögreglunnar. nordicphotos/afp
Norska lögreglan viðurkennir að hafa ekki brugðist nógu hratt við hryðjuverkum Anders Breivik í fyrra. 54 atriði hefðu betur mátt fara samkvæmt rannsókn. Lögreglustjóri baðst afsökunar vegna málsins.

Norska lögreglan hefur gengist við því að hafa ekki brugðist nógu hratt við þegar fréttir bárust af drápunum í Útey í fyrrasumar þar sem Anders Behring Breivik myrti 69 manns.

Niðurstöður innri rannsóknar lögreglunnar leiddu í ljós að galli í samskiptaferlum hefði orsakað tafir á viðbrögðum. Einnig hefði ofhleðsla á hraðbáti á leið út í eyjuna með sérsveitarmenn tafið málin, en alls voru tiltekin 54 atriði þar sem betur hefði mátt fara.

Breivik náði að athafna sig á Útey í eina klukkustund og tuttugu mínútur áður en lögregla handtók hann. Tuttugu manns hið minnsta eru taldir hafa fallið í valinn á Útey síðasta stundarfjórðunginn áður en Breivik var stöðvaður.

Øystein Mæland, lögreglustjóri í Ósló, sagðist á blaðamannafundi harma að lögregla skyldi ekki hafa náð að stöðva Breivik fyrr en raunin varð. Hann baðst afsökunar fyrir hönd lögreglunnar að Breivik náðist ekki fyrr og sagði ljóst að lögreglan hefði ekki verið undir hryðjuverkin búin á þessum tíma. „Hver mínúta var einni mínútu of mikið,“ sagði hann.

„Hefðum við getað brugðist hraðar við? Svarið er já. Ef báturinn hefði ekki verið ofhlaðinn hefðum við komist fyrr út í Útey. Við vitum ekki hvort það hefði leitt til betri niðurstöðu, en það er ekki útilokað. Og það er sárt að hugsa sér að við hefðum getað bjargað mannslífum ef við hefðum yfirbugað gerandann fyrr.“

Lögregla hefur hingað til verið treg til að viðurkenna að eitthvað annað hafi verið hægt að gera til að bregðast við árás Breiviks.

Grete Faremo dómsmálaráðherra tók undir afsökunarbeiðni lögreglunnar, en margir aðstandenda hinna látnu hafa lýst yfir ánægju með afsökunarbeiðni lögreglu. Faremo sagði einnig að innri rannsóknin hefði verið mikilvæg, gott væri að fá staðreyndirnar upp á borðið.

Breivik sjálfur er enn til rannsóknar hjá geðlæknum til að skera úr um sakhæfi hans.thorgils@frettabladid.is

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×