Íslenski boltinn

Finnskur vinstri bakvörður til Skagamanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Heimasíða ÍA
Skagamenn hafa samið við Jan Mikael Berg, vinstri bakvörð frá Finnlandi, til tveggja ára. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Berg er 27 ára og var á reynslu hjá Skagamönnum um miðjan nóvember. Varnarmaðurinn lék æfingaleik með liðinu gegn Stjörnunni og þótti standa sig vel að mati Akurnesinga.

Berg hefur leikið með liðum í tveimur efstu deildum Finnlands og á að baki landsleiki með yngri landsliðum Finna.

„Hann mun koma til móts við okkur í byrjun janúar og byrja þá að æfa með okkur að nýju en hann mun styrkja okkar mannskap og auka í senn breiddina í leikmannahópnum sem er bara jákvætt." sagði Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA á vefsíðu félagsins.

Berg er annar leikmaðurinn sem gengur í raðir Skagamanna á skömmum tíma. Framherjinn Þórður Birgisson samdi nýverið við liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×