Enski boltinn

Büttner og Powell skoruðu í stórsigri United á Wigan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Paul Scholes fagnar marki sínu í dag.
Paul Scholes fagnar marki sínu í dag. Nordicphotos/Getty
Hollendingurinn Alexander Büttner nýtti heldur betur tækifæri sitt í byrjunarliði Manchester United sem lagið Wigan 4-0 að velli á Old Trafford í dag.

Leikurinn var aðeins fimm mínútna gamall þegar United fékk vítaspyrnu. Danny Welbeck henti sér í jörðina í teig Wigan og plataði um leið dómarann sem benti á punktinn. Réttlætinu var fullnægt þegar Al Habsi varði slaka spyrnu Javier Hernandez.

Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleiknum en sá síðari var eign heimamanna. Paul Scholes skoraði á 50. mínútu af stuttu færi en miðjumaðurinn lék sinn 700. leik fyrir félagið í dag.

Tíu mínútum síðar átti Büttner misheppnað skot sem Hernandez stýrði í netið og forysta heimamanna orðin þægileg. Aðeins þremur mínútum síðar opnaði Büttner markareikning sinn fyrir United með skrautlegu marki. Þá fann hann sér leið framhjá sofandi varnarmönnum Wigan og skot hans úr vonlausu færi fór framhjá Al Habsi í markinu.

Skömmu síðar kom hinn átján ára Nick Powell inná og lét strax að sér kveða. Hann fékk boltann utan teigs og fast skot hans söng í netinu.

United er eftir sigurinn í öðru sæti deildarinnar með níu stig. Wigan er rétt fyrir neðan miðja deild með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×