Enski boltinn

Dzeko og Tévez lögðu upp mark fyrir hvorn annan í sigri á QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Edin Dzeko og Carlos Tévez tryggðu Manchester City í 3-1 heimasigur á Queens Park Rangers í kvöldleiknum í ensku úrvalsdeildinni. Manchester City var með mikla yfirburði lengstum í þessum leik en nýtti aðeins eitt færi í fyrri hálfleik sem gaf QPR færi á að jafna leikinn í þeim seinni.

Edin Dzeko kom Manchester City yfir aðeins einni mínútu og 38 sekúndum eftir að QPR jafnaði metin og Carlos Tévez, sem lagði upp markið fyrir Dzeko, skoraði síðan þriðja markið í uppbótartíma eftir undirbúning Dzeko.

Carlos Tévez átti þátt í öllum þremur mörkum City-liðsins í leiknum því Yaya Touré skoraði fyrsta markið eftir að skot Tevez fór í varnarmann.

Manchester City er fyrir vikið í 4. sæti deildarinnar með sjö stig af níu mögulegum en fyrir ofan meistarana eru Chelsea (9 stig og fullt hús), Swansea City og West Bromwich Albion.

Mark Hughes hefur því enn ekki náð að stýra QPR til sigurs á útivelli í ensku úrvalsdeildinni. QPR hefur ennfremur ekki unnið útileik síðan á móti Stoke í nóvember í fyrra en Heiðar Helguson skoraði tvö marka liðsins í þeim leik.

Yaya Touré kom Manchester City í 1-0 á 16. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Carlos Tevez í varnarmann í kjöldfarið á hornspyrnu David Silva.

Bobby Zamora jafnaði leikinn á 59. mínútu með skalla af marklínunni eftir að Joe Hart hafði varið skot frá Andy Johnson.

City-liðið var ekki lengi að svara og komast aftur yfir en Edin Dzeko skoraði þá með skalla úr markteignum á 61. mínútu eftir sendingu frá Carlos Tévez. Það leið aðeins 1 mínúta og 38 sekúndur á milli markanna.

Leikmenn Queens Park Rangers bitu frá sér á lokakafla leiksins og voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna leikinn.

Það var hinsvegar Carlos Tévez sem gerði út um leikinn þegar hann stýrði skoti Edin Dzeko í markið á þriðju mínútu í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×