Enski boltinn

Laudrup: Allt á móti okkur í byrjun en við náðum samt í stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Laudrup, stjóri Swansea.
Michael Laudrup, stjóri Swansea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Laudrup, stjóra Swansea, tókst ekki að stýra liði sínu til sigurs í þriðja leiknum í röð í ensku úrvalsdeildinni en var engu að síður sáttur með sína leikmenn eftir 2-2 jafntefli á móti Sunderland í dag. Sunderland komst tvisvar yfir en Swansea jafnaði í bæði skiptin.

„Þessi leikur í dag sýndi mér úr hverju liðið mitt er gert og hvaða karakter það hefur að geyma," sagði Michael Laudrup eftir leikinn. Bakvörðurinn Neil Taylor meiddist illa í fyrri hálfleik, liðið fékk á sig mark á sjöundu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og missti svo mann af velli á lokakaflanum.

„Það var allt á móti okkur í byrjun en við náðum samt í stig. Við spiluðum mjög vel í seinni hálfleiknum og ætluðum að ná sigurmarkinu en svo misstum við mann af velli. Við héldum samt áfram og vorum meira með boltann. Það var gaman að sjá frammistöðu liðsins í dag," sagði Laudrup.

Swansea-liðið vann fyrstu tvo leiki sína með markatölunni 8-0 og átti því möguleika á því að komast á toppinn með sigri en stigið skilar liðinu í annað sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×