Enski boltinn

Villas-Boas: Við vorum ekki beittir í fyrri hálfleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham.
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, getur ekki leynt vonbrigðum sínum með byrjunina á tímabilinu en Tottenham hefur aðeins náð í tvö stig í fyrstu þremur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Tottenham í 1-1 jafntefli á móti Norwich í dag en íslenski landsliðsmaðurinn náði sér engan veginn á strik.

Villas-Boas tók Gylfa Þór útaf eftir 52 mínútur og breytti úr 4-2-3-1 í 4-4-2 sem hafði góð áhrif á Spurs-liðið. Moussa Dembélé kom Tottenham yfir en annan heimaleikinn í röð fékk Tottenham á sig jöfnunarmark í lokin.

„Við vorum ekki nógu beittir í fyrri hálfleiknum en bættum okkur mikið í seinni hálfleik. Við sköpuðum okkur meira og unnum vel fyrir markinu okkar," sagði Andre Villas-Boas við Sky Sports.

„Í lokin varð síðan fast leikatriði okkur enn á ný að falli. Þessi byrjun er augljóslega vonbrigði fyrir alla en við verðum líka að hrósa Norwich," sagði Villas-Boas sem var síðan spurður út í pressuna á Tottenham-liðinu.

„Pressan á liðinu er bara eðlileg en við verðum að bíða þolinmóðir eftir að hlutirnir fari að ganga betur hjá okkur. Það kemur vanalega þegar menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig," sagði Villas-Boas sem hrósaði bandaríska markverðinum Brad Friedel fyrir leikinn.

„Hann bjargaði okkur nokkrum sinnum í leiknum og kom í veg fyrir að við lentum 0-1 undir. Hann var frábær. Samkeppnin um sæti í liðinu hefur aukist en hann er aðalmarkvörður liðsins enda frábær markvörður sem á það skilið," sagði Villas-Boas sem keypti franska landsliðsmarkvörðinn Hugo Lloris frá Lyon í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×