Enski boltinn

Dembélé skoraði en Tottenham missti aftur af sigri í lokin

Moussa Dembélé fagnar markinu sínu.
Moussa Dembélé fagnar markinu sínu. Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson átti ekki góðan leik og var tekinn af velli eftir 57 mínútur þegar Tottenham gerði 1-1 jafntefli við Norwich á heimavelli sínum í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Moussa Dembélé lék sinn fyrsta leik eftir að Tottenham keypti hann frá Fulham og hélt upp á það með því að koma Tottenham yfir í leiknum en líkt og í síðasta heimaleik (á móti WBA) þá missti Tottenham af sigri í lokin. Robert Snodgrass skoraði jöfnunarmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk fyrsta færi leiksins strax á 4. mínútu leiksins en Tottenham-liðið var annars í vandræðum stærstan hluta fyrri hálfleiksins og gat þakkað Brad Friedel markverði sínum að vera ekki undir í hálfleik.

Moussa Dembélé kom inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Sandro en eins í fyrri hálfleiknum þá fékk Gylfi færi í upphafi hálfleiksins en John Ruddy varði skot hans. Gylfi var síðan tekinn af velli á 57. mínútu fyrir Emmanuel Adebayor og stjórinn Andre Villas-Boas breytti um leið í leikkerfið 4-4-2.

Moussa Dembélé kom Tottenham í 1-0 á 68. mínútu með laglegu skoti frá vítateigslínunni og það stefndi allt í heimasigur þegar boltinn datt fyrir Robert Snodgrass í teignum. Snodgrass skoraði og tryggði Norwich City stig.

Tom Huddlestone kom inn á sem varamaður á 82. mínútu og fékk að líta beint rautt spjald sjö mínútum síðar en Tottenham hélt út og liðin sættust á 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×