Enski boltinn

Gylfi kom inn á 23. mínútu í tapi Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham tapaði 0-1 á heimavelli á móti Wigan í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en þetta var annað deildartap liðsins í röð á White Hart Lane. Tottenham tapaði 2-4 á móti Chelsea í síðasta heimaleik sínum.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður strax á 23. mínútu þegar Sandro meiddist en Tottenham-liðinu tókst ekki að fá neitt út úr leiknum.

Wigan er nú búið að vinna tvo leiki í röð og er komið upp fyrir Liverpool og í 12. sæti deildarinnar.

Ben Watson skoraði eina mark leiksins þegar hann kom Wigan í 1-0 á 56. mínútu og varð um leið fyrsti Englendingurinn til að skora fyrir félagið í ensku deildinni á árinu 2012.

Watson fylgdi þá á eftir þegar Shaun Maloney var næstum því búinn að skora beint úr hornspyrnu. Brad Friedel kom í veg fyrir að hornið færi inn en náði ekki að stoppa skot Watson.

Wigan menn unnu frábæran sigur á liði Tottenham sem náði sér aldrei á strik í þessum leik. Sigur Wigan var sanngjarn og hefði getað verið stærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×