Erlent

Tölvuþrjótar undirbúa árás á bandaríska banka

Fjármálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa varað banka þar í landi við því að hópur rússneskra tölvuþrjóta sé að undirbúa viðamikla árás á þá. Ætlunin er að stela milljónum af dollurum frá bönkunum sjálfum sem og viðskiptavinum þeirra.

Fjallað er um málið í blaðinu Washington Times. Þar segir að rússneski hópurinn kalli sig „Thief-in-Law og að aðgerð þeirra gangi undir nafninu Blitzkrieg.

Tölvuöryggisfyrirtækið McAfee hefur einnig sent frá sér viðvörun vegna þessa hóps og segir raunar að hópnum hafi þegar tekist að koma vírusum fyrir í hundruðum einkatölva í Bandaríkjunum og sé það undirbúningur fyrir árásina á bankana. Vírusarnir séu hannaðir til að stela lykilorðum að bankareikningum.

McAfee telur að um raunverulega ógn sé að ræða fyrir bandarísku bankana og að Blitzkrieg aðgerðin sé þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×