Enski boltinn

Manchester United vann og náði aftur sex stiga forskoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordicphotos/Getty
Manchester United náði aftur sex stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 sigur á Sunderland á Old Trafford í dag. Nágrannarnir höfðu minnkað forystuna í þrjú stig með sigri á Newcastle fyrr í dag.

Robin van Persie skoraði eitt mark og lagði upp annað í leiknum og hefur þar með komið að 18 mörkum liðsins í fyrstu sautján deildarleikjum sínum í búningi Manchester United.

Manchester United lagði grunninn að sigrinum með tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili í fyrri hálfleiknum. Robin van Persie skoraði fyrra markið á 16. mínútu og Tom Cleverley bætti við öðru marki á 19. mínútu eftir frábæra sendingu frá Michael Carrick.

Robin van Persie lagði síðan upp mark fyrir Wayne Rooney á 59. mínútu en þeir félagar hafa náð afar vel saman í vetur.

Fraizer Campbell minnkaði muninn á 72. mínútu á móti sínum gömlu félögum en markið skoraði hann með skalla af stuttu færi. David De Gea hafði nóg að gera í marki Manchester United en Sunderland náði ekki að minnka muninn í eitt mark þrátt fyrir margar hættulegar sóknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×