Erlent

Ofursnekkja Steve Jobs kyrrsett - heimsfrægur hönnuður krefst greiðslu

Glæsileg snekkja.
Glæsileg snekkja.
Hönnuðurinn heimsfrægi, Philippe Starck, hefur látið kyrrsetja ofursnekkjuna Venus sem hann hannaði fyrir tölvugúrúið Steve Jobs.

Eins og kunnugt er lést Jobs úr krabbameini langt fyrir aldur fram á síðasta ári. Hann lét hönnuðinn, sem var raunar ágætur vinur Jobs að auki, hanna fyrir sig snekkjuna, sem liggur í höfn í Hollandi, áður en hann lést.

Núna er kominn upp ágreiningur um eftirstöðvar greiðslu fyrir hönnunina, en Starck lítur svo á að þrotabú auðkýfingsins skuldi sér 3 milljónir evra af níu milljón evra greiðslu sem var lofað.

Svo virðist sem þeir hafi ekki gert skýran samning sín á milli, „þessi náungar treystu hvorum öðrum, samningur var ekki greindur niður í smáatriði," sagði lögmaður Starck í hollenskum fjölmiðlum.

Jobs fékk raunar aldrei að sjá snekkjuna áður en hún var sjósett. Snekkjan er glæsileg og hönnunin mínimalísk og var hugsuð sem vitnisburður um glæsilega og greindarlega hönnun. Heildarverð snekkjunnar eru 105 milljónir evra eða sautján milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×