Erlent

Samþykktu að hefja viðræður um gerð alþjóðasáttmála um vopnasölu

Myndin er úr safni
Myndin er úr safni
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær með yfirgnæfandi meirihluta að hefja viðræður um gerð alþjóðasáttmála um vopnasölu en um er að ræða 70 milljarða dollara markað á heimsvísu.

Fulltrúar á allsherjarþinginu og aðgerðarsinnar sem barist hafa fyrir bættri umgjörð um reglur fyrir vopnasölu höfðu kvartað undan því að viðræður um alþjóðasáttamála um vopnasölu hafi strandað í júlí síðastliðnum því Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hafi óttast gagnrýni frá Mitt Romney í kosningabaráttunni vestanhafs ef bandarísk stjórnvöld myndu styðja gerð sáttmálans, en bandarískir embættismenn hafa neitað þessu.

NRA, samtök skotvopnaeigenda vestanhafs, hafa alfarið lagst gegn sáttamála af þessu tagi en eru undir auknum þrýstingi eftir skotárás í bænum Newton í Connecticut þar sem 26 létust, þeirra á meðal 20 lítil börn.

Eftir að Obama var endurkjörinn í nóvember fóru hjólin að snúast varðandi gerð sáttmálans og í gær samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, með yfirgnæfandi meirihluta, að hefja lokaumferð viðræðna um gerð sáttmálans hinn 18.-28. mars næstkomandi í New York.

Í síðasta mánuði voru greidd atkvæði um málið í afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna og þá studdu Bandaríkjamenn málið en meðal þeirra ríkja sem sátu hjá voru Rússland, Sádí-Arabía, Sýrland, Súdan, Hvíta-Rússland, Kúba og Íran.

Bandaríkjamenn höfðu ávallt lagst gegn sáttamála af þessu tagi sem myndi setja reglur og takmarka alþjóðleg viðskipti með vopn, en sú afstaða breyttist eftir að Obama var kjörinn forseti en 40 prósent allra vopna á heimsvísu eru framleidd vestanahafs.

Embættismenn ríkisstjórnar Obama hafa reynt að útskýra fyrir hagsmunaðilum vestanhafs að sáttmáli af þessu tagi hefði engin áhrif á sölu vopna og eignarhald þeirra í Bandaríkjunum, aðeins á útflutning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×