Erlent

Hélt miðnætturmessuna tveimur tímum fyrr

Þúsundir kristinna pílagríma eru nú í Betlehem til þess að fagna fæðingu frelsararans. Að venju var haldin messa í hinni sautjánhundruð ára gömlu fæðingarkirkju frelsarans, sem stendur þar sem talið er að Jesús hafi komið í heiminn.

Benedikt Páfi hélt einnig hina árlegu miðnæturmessu í Róm sem að þessu sinni hófst reyndar klukkan tveimur tímum fyrir miðnætti, til þess að reyna ekki um of á hinn aldna páfa, sem er áttatíu og fimm ára. Páfinn bað fyrir því að Ísraelsmenn og Palestínumenn geti lifað í sátt og samlyndi og þá bað hann fyrir friði í Líbanon, Sýrlandi og í Írak.

Í Betlehem lýsti æðstiprestur kaþólsku kirkjunnar þar í borg yfir stuðningi sínum við ríki Palestínumanna og sagði að á þessum jólum fögnuðu menn fæðingu frelsarans en einnig fæðingu hins palestínska ríkis, en Sameinuðu þjóðirnar veittu Palestínu stöðu áheyrnarríkis í nóvember síðastliðnum.

Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas var viðstaddur messuna og patríarkinn hvatti alla hlutaðeigandi til þess að vinna að langvarandi friði í miðausturlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×