Erlent

Ölvaður ók stolnum bíl á flugbrautinni

Breti var handtekinn á Schiphol flugvellinum í Amsterdam í morgun eftir að hann keyrði ölvaður á stolnum bíl á flugbrautinni. Maðurinn var á leiðinni heim til sín þegar hann ýtti á öryggishnapp við eitt hliðið, rauk út og stal bíl sem var í eigu eins flugvallarstarfsmanns.

Talsmaður lögreglunnar segir að hann hafi keyrt um í nokkrar mínútur en engin hætta hafi skapast.

„Það er ekki mikið af flugum á aðfangadagskvöld og á þeim tíma sem hann keyrði um flugbrautina var engin flugvél að lenda eða fara á loft," segir Dennis Muller, talsmaður lögreglunnar.

„Við erum að rannsaka hvernig hann fór að því að taka bílinn. Við vitum ekki hvers vegna hann tók hann en þegar þú ert ölvaður gerir þú oft heimskulega hluti. Við munum yfirheyra hann þegar það er runnið af honum, og það er í höndum saksóknara hvert framhaldið verður."

Um 140 þúsund farþegar fara um Schiphol flugvöll á degi hverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×