Erlent

Ættleiðingarfrumvarpið samþykkt

Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Efri deild rússneska þingsins samþykkti samhljóða í morgun umdeilt frumvarp sem felur í sér bann við ættleiðingu rússneskra barna til Bandaríkjanna.

Neðri deild rússneska þingsins hafði áður samþykkt frumvarpið svo nú fær Vladimar Pútín, forseti Rússlands, það til undirskriftar. Fréttaskýrendur telja líklegt að hann undirriti það í ljósi ummæla hans undanfarið um málið.

Frumvarpið er sagt vera nokkurs konar svar Rússa við lögum sem Bandaríkjamenn samþykktu á dögunum og fela í sér refsiaðgerðir gegn rússneskum embættismönnum sem talið er að séu ábyrgir fyrir dauða Segei Magnitsky, lögmanns sem lést í rússneksu fangelsi fyrir þremur árum. Hann hafði tekið þátt í að koma upp um spillta lögregluþjóna.

Utanríkisráðherra Rússlands hefur talað gegn frumvarpinu ásamt nokkrum háttsettum embættismönnum í landinu. Gagnrýnendur segja það svipta börn tækifærinu á að komast hjá því að dvelja á rússneskum munaðarleysingjaheimilum. Um 740 þúsund munaðarlaus börn eru í Rússlandi.

Nokkrir mótmælendur voru handteknir fyrir utan rússneska þingið í morgun á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×