Erlent

Morsi óskar þjóðinni til hamingju með stjórnarskrána

BBI skrifar
Mohammed Morsi, forseti Egyptalands.
Mohammed Morsi, forseti Egyptalands. Mynd/AFP
Forseti Egyptalands óskaði í dag landsmönnum til hamingju með nýja stjórnarskrá sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hvatti andstæðar fylkingar til að sameinast í þjóðarumræðu um framtíð landsins og sagði það væri forgangsverkefni að koma efnahag landsins á réttan kjöl.

Í sjónvarpsávarpi talaði Mohammed Morsi, forseti Egyptalands, til egypsku þjóðarinnar í fyrsta sinn frá því stjórnarskrárdrögin voru samþykkt með 63% greiddra atkvæða. Hann sagði að eftir atkvæðagreiðsluna gæti þjóðin tekið næstu skref í átt til stöðugleika og öryggis.

Hann sagði að efnahagsmál yrðu í forgangi og hann myndi reyna að lokka fjárfesta til landsins. „Ég mun verja öllum mínum kröftum til að koma efnahag landsins á skrið," sagði Morsi, en gjaldmiðill Egyptalands hefur ekki verið veikari í átta ár miðað við dollarann.

Morsi viðurkenndi að það væru margir í landinu sem væru andvígir stjórnarskránni. Hann sagðist þó ekki líta niður á þá sem greiddu atkvæði gegn drögunum þar sem Egyptaland ætti ekki að vera land þar sem „aðeins ein skoðun er liðin". Hins vegar sagðist hann fyrirlíta þá sem beittu ofbeldi í atkvæðagreiðslunni.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×