Erlent

Brenndist illa sem barn - er nú fyrirsæta fyrir Next

Stúlka sem brenndist illa í andliti og líkama þegar hún var átta ára gömul verður fyrirsæta fyrir fatarisann Next í Bretlandi. „Ég er ótrúlega þakklát fyrir tækifærið," segir hún.

Labonya Siddiqui, sem er tuttugu og eins árs, býr í Burnley í Englandi. Þegar hún var átta ára gömul sprakk olíulampi sem var nálægt henni, með þeim afleiðingum að hún hlaut ör í andliti, hálsi og á bringu. Atvikið átti sér stað árið 2000 í Bangladesh, þar sem hún fæddist. Hún var í dái í fimm daga og í lífshættu. Eftir miklar og strangar meðferðir og fjölda skurðaðgerða fluttist fjölskylda hennar til Burnley árið 2002.

Hún faldi örin með treflum í tólf ár, eða þangað til vinur hennar hvatti hana til að sýna sitt rétta andlit. Það hefur heldur betur skilað sér því, hún er nýjasta fyrirsæta Next fatafyrirtækisins.

„Sú staðreynd að Next ætli að taka þá áhættu, og gefa mér þetta tækifæri, er ótrúlegt. Þegar ég var unglingur skoðaði ég tímaritin, og dreymdi um að verða fyrirsæta í tískutímaritunum einn daginn," segir hún.

Labonya lærir nú efnafræði í Bradford háskólanum og vonast til að verða fyrirmynd fyrir aðra, sem eru með ör eftir bruna.

„Ég vona þegar fólk sjái myndirnar af mér að það finni einnig sjálfstraustið og styrkinn, svo því líði vel með sjálft sig. Alveg eins og ég geri núna þrátt fyrir örin," segir hún.

Viðtal við þessa mögnuðu stúlku, sem BBC tók við hana á dögunum, má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×