Erlent

Snúast gegn H&M

BBI skrifar
Mynd/AFP
Alþjóðleg mannréttindasamtök snúast nú gegn fataverslunarkeðjunni H&M. Samtökin hvetja keðjuna til að hætta að selja föt sem framleidd eru úr baðmull sem tínd er af börnum í nauðungarvinnu í Úsbekistan.

Úsbekistan er meðal þeirra sem flytja út einna mest af baðmull í heiminum. Þar eru jafnt fullorðnir sem börn þvingaðir til að tína baðmullina við mjög bágar aðstæður. Það er oft erfitt að segja nákvæmlega til um hvaðan baðmull kemur því hún er gjarna flutt til Kína og unnin þar. Því kemur fyrir að fatakeðjur kaupi baðmull sem flutt er frá Úsbekistan óafvitandi, en H&M hafa einmitt borið því við.

H&M rekur um 2.500 verslanir um allan heim. Mannréttindasamtökin hvetja keðjuna til að versla aldrei með föt sem mögulega eru gerð úr baðmull frá Úsbekistan og grípa til markvissra aðgerða í því skyni.

Frá þessu greinir The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×