Erlent

Rússar hamstra mat vegna heimsendis

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu.
Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu. MYND/AFP
Íbúar í Téténíu undirbúa sig nú fyrir meintan heimsendi á föstudaginn og hafa þeir hamstrað matvæli, salt og eldsneyti. Fjölmargar kjörbúðir í landinu standa nú auðar. Ástandið er hvað verst í bænum Novokuznetsk þar sem íbúar keyptu um 60 tonn af salti í síðustu viku. Að sama skapi hafa eldspýtur og kerti selst afar vel á undanfarið.

Yfirvöld í landinu reyna nú að sefa ótta almennings. Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu, birti skilaboð til landa sinna á vefsvæði sínu á dögunum þar sem hann ítrekaði það að matarbirgðir myndu ekki nýtast fólki ef heimsendir ætti sér stað.

Það verður að teljast athyglisvert að Kadyrov hafi nú stigið fram sem rödd skynseminnar enda er leiðtoginn sagður bera ábyrgð á fjölmörgum morðum á síðustu árum. Þá hafa mannréttindasamtök víða um heim staðhæft að Kadyrov reki dauðsveitir sem ráði menn af dögum í skjóli nætur.

Yfirvöld í Rússlandi hafa einnig biðlað til almennings um að halda ró sinni. Þannig hefur ráðherra almannavarna í landinu opnað sérstaka símaþjónustu þar sem óttaslegnir Rússar geta haft samband við sérfræðinga.

Hugleiðingar um heimsendi þann 21. desember næstkomandi eiga rætur að rekja til dagatals Maya en það rennur út á þessum degi. Sérfræðingar víða um heim hafa ítrekað bent á að ekkert bendi til þess að von sé á ragnarökum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×