Erlent

Kennarar ættu að bera skotvopn í kennslustofum

Rick Perry, ríkisstjóri í Texas.
Rick Perry, ríkisstjóri í Texas. MYND/AFP

Rick Perry, ríkisstjóri í Texas, varar við því að yfirvöld í Bandaríkjunum grípi til róttækra breytinga á vopnalöggjöf landsins í kjölfar fjöldamorðsins í Newtown síðastliðinn föstudag.

Perry, sem sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember, flutti ræðu á samkomu Teboðshreyfingarinnar í Texas í gær. Þar sagði Perry að voðaverkin í grunnskólanum Sandy hook í Newtown, sem kostuðu 26 mannslífið, væru illskeytt.

Umræðan um hertari vopnalöggjöf hefur náð nýjum hæðum í kjölfar ódæðisverkanna. Perry, sem er mikill stuðningsmaður núverandi reglugerða um vopnaburð í Bandaríkjunum, sagði að hertari löggjöf myndi ekki skila árangri.

Þvert á móti sagði Perry að þeir sem hafa tilskilin leyfi til að bera skammbyssur innanklæða ættu að fá að bera vopn sín hvar sem er í ríkinu. Perry vék máli sínu sérstaklega að kennurum sem með slíkum breytingum fengju að bera skammbyssur í kennslustofum. Perry uppskar mikið lof frá samkomugestum fyrir þessi ummæli.

Perry sagði einnig að hann væri reiðubúinn að sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir næstu kosningar.

Kosningabarátta hans endaði með ósköpum þegar hann gat ekki svarað spurningu í kappræðum þann 11. nóvember á síðasta ári.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.