Erlent

Kínverjar refsa Norðmönnum í vegabréfsáritunum

Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða íbúum í öllum ríkjum Evrópu nema Noregi upp á að ferðast til Beijing án vegabréfsáritunar.

Í frétt um málið í Financial Times segir að þetta sé enn ein refsingin sem Kínverjar beiti gegn Norðmönnum vegna óánægju með friðarverðlaunin árið 2010. Eins og kunnugt er voru verðlaunin veitt þekktum kínverskum andófsmanni og hafa samskipti Kína og Noregs verið botnfrosin síðan.

Auk allra landanna innan Evrópusambandsins og Íslands og Sviss munu íbúar nokkurra annarra þjóða einnig geta ferðast til Beijing án vegsbréfáritunar frá og með 1. janúar n.k. Hér er um íbúa í Bandaríkjunum, Rússlandi, Japan og Ástralíu að ræða auk helstu landanna í Suður Ameríku.

Í Financial Times er rætt við Wang Qin háttsettan embættismann hjá Ferðamálastofu Beijing um málið. Aðspurður um af hverju Norðmenn fá ekki sömu réttindi og aðrir Evrópubúar svarar Wang því ekki beint. Hann segir hinsvegar að sum lönd hafi ekki komið til greina vegna þess hve léleg þau væru og þess að ríkisstjórnir þeirra hefðu hegðað sér illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×