Enski boltinn

Southgate: Samkynhneigðir velkomnir í klefann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gareth Southgate spilaði 57 landsleiki sem miðvörður enska landsliðsins.
Gareth Southgate spilaði 57 landsleiki sem miðvörður enska landsliðsins. Nordicphotos/Getty
Gareth Southgate, fyrrum landsliðsmaður Englands, telur að leikmenn myndu bjóða samkynhneigða knattspyrnumenn velkomna í búningsklefann.

Southgate tjáði sig í kjölfarið á því að Anders Lindegaard, markvörður Manchester United, lýsti því yfir að samkynhneigðir þyrftu á fyrirmynd í knattspyrnuheiminum að halda.

Þrátt fyrir að stór nöfn íþróttamanna af hvoru kyni hafi komið út úr skápnum undanfarin ár er Justin Fashanu eini þekkti knattspyrnumaðurinn sem opinberað hefur samkynhneigð sína.

22 ár eru liðin síðan Fashanu kom út úr skápnum en opinberun hans vakti mikla athygli. Sorglegur endir var á sögu framherjans sem framdi sjálfsmorð nokkrum árum síðar.

„Það þarf einhvern nógu hugrakkan til að vera opinn og einlægur," segir Southgate um þann samkynhneigða karlmann sem gæti stigið stórt skref í heimi atvinnuknattspyrnumanna með því að koma út úr skápnum.

„Leikmenn blanda geði við önnur þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð þannig að ég sé enga ástæðu fyrir því að samkynhneigð ætti að vera vandamál í búningsklefanum," segir Southgate sem hefur meiri áhyggjur af viðbrögðum stuðningsmanna.

„Við getum ekki stjórnað stuðningsmönnum og vitanlega verða skoðanir skiptar í samfélaginu. Í sannleika sagt getum við þó ekki svarað því hvernig fólk mun bregðast við fyrr en einhver stígur fram í sviðsljósið," segir Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×