Erlent

Drap tvo menn, sagaði þá í búta og gróf þá í kjallaranum í ísbúð

Estibaliz Carranza myrti tvo menn með köldu blóði.
Estibaliz Carranza myrti tvo menn með köldu blóði.
Hin 34 ára gamla Estibaliz Carranza var dæmd til lífstíðarvistar á réttargeðdeild í Austurríki en hún var sakfelld í dag fyrir að myrða eiginmann sinn árið 2008 og svo elskhuga sinn tveimur árum síðar.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Austurríki, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að Carranza, sem er mexíkóskur innflytjandi, er með sama verjanda og varði Jósef Fritzl, þessi sem læsti dóttur sína inni í 24 ár og eignaðist með henni börn.

Carranza skaut báða mennina í hnakkann, skar þá í búta með keðjusög, frysti líkamsleifar þeirra og gróf svo leifarnar í kjallaranum í ísbúð sem hún rak. Þar af leiðandi hefur Carranza verið kölluð ísdaman í Austurríki.

Carranza var metin ósakhæf af sama sálfræðingi og mat geðheilsu Jósefs Fritzl. Carranza myrti fyrri eiginmann sinn eftir að hann neitaði að flytja út úr íbúðinni þeirra eftir að þau skildu, en þá þegar var hún byrjuð með elskhuganum, sem hún átti eftir að myrða tveimur árum síðar, vegna gruns um að hann væri að halda framhjá henni.

Líkamsleifar mannanna fundust fyrir tilviljun á síðasta ári þegar viðgerðir stóðu yfir í kjallaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×