Erlent

Hreyfimyndir af ódæði Breiviks birtar í fyrsta skipti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Myndskeið birtist í fyrsta sinn í dag af því þegar Anders Behring Breivik leggur bílnum með sprengjunni í Stjórnarráðshverfinu í Osló og gengur síðan burt hröðum skrefum.

Það var klukkan sextán mínútur yfir þrjú að degi til, þann 22. júlí í fyrra, sem Breivik beygði inn í Stjórnarráðshverfið og lagði bílnum. Örfáum mínútum seinna sprakk bíllinn. Myndirnar sem norska ríkissjónvarpið birtir á vef sínum í dag verða sýndar í heild sinni í þættinum Brennpunkt á morgun.

Á myndunum sést maður í lögreglubúningi yfirgefa bíl sinn og ganga yfir götu. Sá maður var að sjálfsögðu Breivik. Sprengjan springur svo klukkan 15:25 og eldhaf leggur frá sprengjunni og rúður í húsum í kring springa í tætlur.

Átta létust í sprengingunni í Stjórnarráðshverfinu, en Breivik myrti svo 69 í Útey strax á eftir.

Á vef NRK getur þú séð myndirnar sem birtar eru í fyrsta sinn.



Rúður í húsunum sprungu í tætlur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×