Enski boltinn

QPR og Reading skildu jöfn | Hvorugt liðanna unnið leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
QPR og Reading gerðu 1-1 jafntefli á Loftus Road í Lundúnum í dag. Um botnbaráttuslag var að ræða en hvorugt liðanna hefur unnið leik það sem af er tímabili.

Lettinn Kaspars Gorkss kom gestunum frá Reading yfir eftir stundarfjórðung. Hann náði þá skoti úr teignum sem Julio Cesar tókst ekki að verja. Klaufaskapur hjá Brasilíumanninum í markinu en Gorkss annar Lettinn til þess að skora í ensku úrvalsdeildinni á eftir Marian Pahars.

Djibril Cissé jafnaði metin fyrir heimamenn um miðjan síðari hálfleik með fallegu marki. Frakkinn tók þá vel við fyrirgjöf frá hægri og afgreiddi boltann neðst í markhornið.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og þurftu liðin því að sættast á skiptan hlut.

Liðin halda áfram að einangra sig í fallsætum deildarinnar þar sem þau njóta félagsskapar Southampton. Reading hefur fimm stig í 18. sæti deildarinnar en QPR er í 19. sæti með fjögur stig líkt og Southampton en betri markatölu.

Southampton sækir West Brom heim í lokaleik umferðarinnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×