Enski boltinn

Mancini lætur Guardiola-sögusagnir ekki trufla sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Brian Kidd.
Roberto Mancini og Brian Kidd. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur ekki neinar áhyggjur af því þótt fjölmiðlar séu að orða Pep Guardiola við starfið hans hjá City. Txiki Begiristain vann lengi með Guardiola hjá Barcelona og hefur nú tekið við starfi yfirmanni knattspyrnumála hjá City.

„Ég er mjög ánægður með Begiristain. Hann er með mikla reynslu frá því að vera hjá toppklúbbi eins og Barca. Ég tel að við getum gert enn betur í framtíðinni," sagði Roberto Mancini.

„Ef einhverjir ætla að skrifa að fyrst að Txiki sé kominn þá sé Guardiola að koma á næsta ári til að setjast í stjórastólinn en það er ekki mitt vandamál. Ég er hér núna og vil halda áfram mínu starfi því ég tel að við getum orðið enn betri," sagði Mancini.

En hvernig verður samstarfið milli Roberto Mancini og Txiki Begiristain þegar kemur að því að kaupa nýja leikmenn til félagsins?

„Ég vil ráða því hvaða leikmenn við kaupum eins og er bara eðlilegt fyrir knattspyrnustjóra hvers félags. Ég vann vel með Brian Kidd í morg ár og ég tel að Txiki gangi bara inn í hans starf. Ég hef mitt starf og Txiki hefur sitt starf. Hann mun tala við mig áður við kaupum menn til félagsins," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×