Enski boltinn

Robin van Persie: Þetta var sérstakur dagur fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie fagnaði ekki markinu sínu.
Robin van Persie fagnaði ekki markinu sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie skoraði fyrra mark Manchester United í 2-1 sigri á hans gömlu félögum í Arsenal í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Van Persie var búinn að skora eftir aðeins þrjár mínútur.

„Þetta var sérstakur dagur fyrir mig en þegar öllu er á botninn hvolft þá snérist þetta um leikinn og mér fannst við spila vel," sagði Robin van Persie.

„Við vorum svolítið klaufalegir í færunum og áttum að skora fleiri mörk en við fengum öll þrjú stigin og það var fyrir öllu," sagði Van Persie.

„Þetta var í fyrsta sinn á ferlinum þar sem ég mæti mínu gamla liði en ég er ánægðastur með að við skyldum ná að vinna leikinn," sagði Van Persie en hann fagnaði ekki markinu sínu.

„Ég spilaði í átta ár með Arsenal og átti frábæran tíma þar. Ég ber virðingu fyrir stuðningsmönnunum, stjóranum, leikmönnunum og öllu félaginu. Það er ástæðan fyrir því að ég fagnaði ekki markinu mínu," sagði Van Persie.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×