Enski boltinn

Fer Neymar til Manchester City?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þrátt fyrir ungan aldur er hinn tvítugi Brasilíumaður Neymar búinn að vera undir smásjá stærstu fótboltaliða heims í langan tíma. Enska blaðið The People greinir frá því í dag að eitt fyrsta verk nýráðins íþróttastjóra Manchester City, Txiki Begiristain, sé að krækja í Brasilíumanninn unga. Blaðið segir að Neymar sé efstur á óskalista Mancini.

Neymar skoraði þrennu í nótt í brasilísku deildinni þegar Santos vann 4-0 sigur á Cruzeiro.

Begiristain losnar greinilega ekki við Neymar alveg á næstunni. Hann var áður í svipuðu starfi hjá Barcelona sem einnig vildi krækja í Neymar.

Mancini fékk ekki þá leikmenn sem hann vildi í sumar. Þá vildi hann fá Daniele De Rossi frá Roma og Robin van Persie frá Arsenal en sat uppi með Scott Sinclair, Javi Garcia og Jack Rodwell. Þeir þremenningar hafa ekki slegið í gegn hjá City, allavega ekki enn sem komið er.

Svo veit auðvitað enginn hvort Roberto Mancini verður ennþá knattspyrnustjóri hjá City næsta sumar. Skv. People kostar það City 20 milljónir punda að sparka Mancini en blaðið bendir á að fáir þekki Pep Guardiola fyrrverandi stjóra Barcelona en nýráðinn íþróttastjóri Manchester City, Txiki Begiristain, sem hefur störf hjá félaginu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×