Enski boltinn

Henning Berg tekur við Blackburn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henning Berg (í miðju) fagnar enska meistaratitlinum með löndum sínum Ole Gunnar Solskjaer og Ronny Johnsen.
Henning Berg (í miðju) fagnar enska meistaratitlinum með löndum sínum Ole Gunnar Solskjaer og Ronny Johnsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Henning Berg, fyrrum leikmaður Blackburn Rovers og Manchester United, verður næsti stjóri enska b-deildarfélagsins Blackburn Rovers. Enskir miðlar greinar frá því að hann verði kynntur á blaðamannafundi á morgun.

Henning Berg er 43 ára gamall og hefur þjálfað tvö lið í norsku úrvalsdeildinni; Lyn frá 2005 til 2008 og Lilleström frá 2009 til 2011.

Berg mun gera þriggja ára samning við Blackburn Rovers og taka strax við stjórnartaumunum en félagið var að leita sér að framtíðarstjóra eftir að Steve Kean var látinn fara 28. september síðastliðinn.

Eric Black hefur stýrt liðinu síðan og er liðið komið upp í 5. sæti ensku b-deildarinnar eftir tvo 1-0 sigra í röð en liðið náði ekki að vinna í fyrstu fjórum leikjum sínum undir stjórn Black.

Berg endaði fótboltaferillinn með Rangers 2004 en hann varð fyrsti maðurinn til þess að vinna ensku úrvalsdeildina með tveimur félögum (Blackburn Rovers 1994–95 og Manchester United 1998–99 + 1999–2000).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×