Enski boltinn

Villas-Boas hrósaði Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Di Matteo var aðstoðarmaður Villas-Boas hjá Chelsea á sínum tíma.
Roberto Di Matteo var aðstoðarmaður Villas-Boas hjá Chelsea á sínum tíma. Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, mátti þola tap gegn hans gömlu lærisveinum í Chelsea þegar liðin mættust í Lundúnarslag í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Chelsea hafði betur, 4-2, eftir að Tottenham hafði komist 2-1 yfir í leiknum. Juan Mata var maður leiksins en hann skoraði tvívegis með stuttu millibili í síðari hálfleik og lagði svo upp síðasta mark Chelsea.

„Þetta var tilfinningaþrunginn leikur og bæði lið fengu færi til að skora," sagði Villas-Boas við fjölmiðla eftir leik.

„Okkur tókst að snúa leiknum okkur í hag í seinni hálfleik en frábært einstaklingsframtak hjá Chelsea braut vörn okkar á bak aftur og kláraði leikinn."

„Við höfum verið á ágætu skriði en þurfum nú að koma okkur aftur á beinu brautina. Það eru enn 30 leikir eftir af tímabilinu."

Gareth Bale var fjarverandi í dag þar sem að kona hans er barnshafandi og var flutt á fæðingardeild í morgun.

„Við söknuðum hans en við eigum marga góða leikmenn í staðinn. Gylfi Sigurðsson kom inn í liðið og spilaði vel. Við erum með góðan leikmannahóp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×