Fótbolti

Shakhtar Donetsk vann Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Shakhtar Donetsk sýndi styrk sinn í kvöld með því að vinna 2-1 sigur á Evrópumeisturum Chelsea í Úkraínu. Shakhtar Donetsk er því komið með þriggja stiga forskot á Chelsea á toppi E-riðilsins.

Shakhtar Donetsk skoraði snemma í leiknum og hefði auðveldlega getað skorað fleiri mörk í þessum leik. Úkraínumennirnir eru nú með 7 stig og markatöluna 5-2 þegar riðlakeppnina er hálfnuð.

Alex Teixeira kom Shakhtar Donetsk í 1-0 strax á 3. mínútu leiksins eftir að hafa fengið tíma til að leggja boltann fyrir sig í teignum.

Shakhtar Donetsk var með yfirburði í fyrri hálfleiknum og Chelsea gat þakkað markverði sínum Petr Cech fyrir að staðan var bara 1-0 í hálfleik.

Petr Cech kom hinsvegar engum vörnum við þegar Fernandinho kom Shakhtar í 2-0 á 52. mínútu eftir skyndisókn og sendingu Luiz Adriano.

Chelsea náði að sækja í sig veðrið eftir að liðið lenti tveimur mörkum undir og Oscar minnkaði loks muninn á 88. mínútu eftir sendingu frá Branislav Ivanovic. Chelsea náði ekki jöfnunarmarkinu og heimamenn fögnuðu flottum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×