Fótbolti

Jordi Alba með sigurmark Barca í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Celtic kom á óvart með frábærri frammistöðu sinni á Nývangi í kvöld og var grátlega nálægt því að ná í stig út úr leiknum. Jordi Alba skoraði sigurmark Barcaelona á fjórðu mínútu í uppbótartíma og tryggði spænska liðinu nauman en sanngjarnan 2-1 sigur.

Celtic-menn komu heimamönnum í opna skjöldu þegar þeir komust yfir á 18. mínútu leiksins en það var fyrsta alvöru sókn liðsins í leiknum. Javier Mascherano sendi þá boltann í eigið mark þegar Georgios Samaras skallaði boltann í ahnn eftir aukaspyrnu.

Andrés Iniesta náði að jafna leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir frábæra sókn og sendingu frá Xavi. Lionel Messi, Xavi og Iniesta sundurspiluðu þá vörn Skotanna.

Fraser Forster átti frábæran leik í marki Celtic og varði hvað eftir annað frábærlega þar á meðal tvisvar frá snillingnum Lionel Messi.

David Villa var nálægt því að skora sigurmarkið á 90. mínútu en skot hans small þá í stönginni á marki Celtic. Það leit allt út fyrir jafntefli þegar Jordi Alba læddist inn á fjærstöngina og stýrði inn fyrirgjöf Adriano.

Barcelona-menn fögnuðu gríðarlega en Skotarnir lágu niðurbrotnir í grasinu enda grátlega nálægt því að ná í stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×