Fótbolti

Sir Alex: Svona er þetta búið að vera allt þetta tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez og Alex Ferguson
Javier Hernandez og Alex Ferguson Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gat brosað eftir 3-2 sigur liðsins á Braga á Old Trafford í kvöld en hvorki honum né öðrum United-mönnum leyst eflaust á blikuna þegar portúgalska liðið var komið í 2-0 eftir tuttugu mínútna leik.

„Svona er þetta búið að vera allt þetta tímabil, við erum ítrekað að byrja leiki illa og fá á okkur mörk í upphafi þeirra. Við höfðum þurft að bjarga leikjum og framherjarnir okkar hafa verið að gera það. Við spiluðum samt frábæran fótbolta í kvöld en það er vissulega áhyggjuefni að við séum að fá á okkur öll þessi mörk," sagði Sir Alex Ferguson.

Javier Hernandez skoraði tvö mörk fyrir Manchester United í kvöld og var hetja liðsins þegar hann skoraði sigurmarkið í seinni hálfleiknum. „Hann er alltaf að bæta sig. Hann æfir mikið og hefur mikla orku. Ég er með hann, Wayne Rooney, Robin van Persie og Danny Welbeck og ég viðurkenni að stundum fer ég að pæla í því hvað ég á að gera við alla þessa framherja," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×