Enski boltinn

Man. Utd vann Chelsea | Dómarinn í aðalhlutverki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Manchester United vann heldur skrautlegan sigur á Chelsea á Stamford Bridge í London í dag en leikurinn endaði 3-2.

Manchester United byrjaði leikinn frábærlega og komust í 1-0 eftir aðeins fjórar mínútur þegar David Luiz skoraði sjálfsmark eftir að skot frá Robin van Persie hafnaði í Luiz.

Robin van Persie var aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar þegar hann skoraði frábært mark eftir fyrirgjöf frá Antonio Valencia. Juan Mata, leikmaður Chelsea, minnkaði muninn rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu.

Ramires jafnaði metin fyrir Chelsea í byrjun síðari hálfleiks og leikurinn galopinn. Tæplega hálftíma fyrir leikslok fékk Branislav Ivanovic beint rautt spjald fyrir að brjóta á Ashley Young sem var sloppinn í gegn.

Aðeins fimm mínútum síðar fékk Fernando Torres að líta sitt annað gula spjald í leiknum og því rautt , en Mark Clattenburg, dómari leiksins, vildi meina að Torres hefði látið sig falla þegar Jonny Evans braut á Spánverjum.

Fáranlegur dómur og Torres rekinn óverðskuldað af velli. Þá voru Chelsea menn orðnir 9 gegn 11 og útlitið svart. Til að kóróna slæman leik sinn þá fékk þriðja mark Manchester United að standa þegar Javier Hernández skoraði mark í rangstöðu.

Leikmenn Chelsea neituðu að gefast upp og reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan því 3-2 sigur Manchester United.

Manchester United er eftir leiki helgarinnar í öðru sæti deildarinnar með 21 stig, einu stigi á eftir Chelsea sem er í efsta sætinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×