Fótbolti

Siggi Raggi: Eigum betra lið en fyrir fjórum árum

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
„Þetta er bara geðveikt. Við erum að uppskera eftir tveggja ára vinnu og gaman að svo margir gátu tekið þátt í því með okkur," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari Íslands eftir 3-2 sigur Íslands á Úkraínu í kvöld.

„Áhorfendametið var slegið og stuðningurinn var frábær. Í fyrsta skipti þurfti að opna stúkuna hinumegin og það er áfangi. Við fyllum hana seinna," sagði Sigurður Ragnar. Vallarmetið á kvennalandsleik var slegið því 6.647 mættu í Dalinn til að hvetja stelpurnar okkar. Sigurður hvatti landsmenn til að fjölmenna á völlinn í pistli sem fór sem eldur í sinu um netheima í aðdraganda leiksins.

„Ég hafði alveg trú á því að við gætum fyllt stúkuna. Ég held að seldir miðar hafi verið fleiri en fólkið sem mætti á leikinn. Það komu kannski ekki allir sem keyptu miða en sýndu engu að síður stuðning með því að kaupa miða. Það er frábært. Ég held að stuðningurinn hafi skilað sér vel inn á völlinn. Við sýndum karakter, baráttu og vilja og unnum leikinn. Ég er virkilega stoltur af liðinu," sagði Sigurður Ragnar.

Klúðraði málunum með að hafa Dagnýju á bekknumLeikurinn í kvöld var nánast spegilmynd af fyrri leik liðanna. Ísland missti niður tveggja marka forskot en tryggði sér svo sætan sigur.

„Í stöðunni 2-0 held ég að mér hafi liðið svipað og leikmönnunum. Það var svolítið spennufall og leikmenn héldu að þetta væri komið. Svo var ekki. Úkraína gefst aldrei upp, kom tilbaka og jafnaði líkt og í leiknum úti."

„Það fór aðeins um okkur í stöðunni 2-2 þegar vantaði bara eitt mark upp á til þess að fara í framlengingu. Sem betur fer náði Dagný að klóra í bakkann og klára leikinn fyrir okkur," sagði Sigurður Ragnar og gerði lítið úr því að stuttu áður hafði hann skipt Dagnýju inná. Fullkomin skipting.

„Ég held ég hafi frekar klúðrað málunum með því að byrja ekki með hana inná fyrst hún spilaði svona vel," sagði Sigurður Ragnar og hló.

Liðið sterkara en fyrir fjórum árumÍslenska landsliðið verður með í lokakeppni EM í annað sinn. Liðið komst í fyrsta skipti þangað fyrir fjórum árum en keppt var í Finnlandi sumarið 2009.

„Það er aðeins öðruvísi að vera að fara aftur. Hluti af hópnum hefur aldrei farið áður og jákvætt fyrir þær að upplifa þetta í fyrsta skipti. Það er líka góð blanda því við höfum reynda leikmenn sem hafa farið áður og vita út á hvað þetta gengur. Vonandi tekst okkur að gera ennþá betri hluti en síðast," segir Sigurður Ragnar sem telur íslenska liðið sterkara nú en fyrir fjórum árum.

„Já, mér finnst við eiga betra lið en það eru líka aðrar þjóðir sem hafa bætt sig. Það hafa orðið miklar framfarir hjá kvennalandsliðunum. Við eigum lið sem getur unnið hvaða lið sem er á góðum degi. Við getum hins vegar líka misstígið okkur og klúðrað gegn lakari liðum. Við þurfum að halda vel á spöðunum og halda áfram að bæta okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×