Enski boltinn

Everton án Fellaini næstu vikurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton hefur komið mörgum á óvart með góðri frammistöðu í upphafi tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni enda liðið í 4. sætinu eftir sjö umferðir. David Moyes og lærisveinar urðu hinsvegar fyrir áfalli í gær þegar í ljós kom að Belginn Marouane Fellaini verður ekki með í næstu leikjum.

Marouane Fellaini meiddist á hné í leiknum á móti Wigan um síðustu helgi en fór engu að síður til móts við belgíska landsliðið. Nánari rannsóknir á meiðslunum leiddu það aftur á móti í ljós að Fellaini verður frá næstu vikurnar.

Belgíska knattspyrnusambandið tilkynnti að Fellaini hafði meiðst bæði á vöðva og sin við hnéð og að hann verði frá í það minnsta þrjár vikur. Belgarnir komust að samkomulagi við Everton að Fellaini fái að vera í Belgíu á meðan endurhæfingunni stendur.

Marouane Fellaini hefur spilað vel í upphafi tímabilsins en hann er með þrjú mörk og eina stoðsendingu í fyrstu sjö leikjum liðsins og Everton-liðið hefur náð í 14 stig út úr þeim. Marouane Fellaini skoraði meðal annars sigurmarkið á móti Manchester United í fyrsta leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×