Enski boltinn

Sahin: Rodgers getur náð sama árangri og Klopp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nuri Sahin, leikmaður Liverpool, segir að Brendan Rodgers, stjóri liðsins, geti fært félaginu titla á ný en þurfi tíma til þess.

Sahin lék lengi með með Dortmund í Þýskalandi en þaðan var hann seldur til Real Madrid sumarið 2011. Hann mun spila með Liverpool til loka leiktíðarinnar sem lánsmaður frá spænska stórveldinu.

Klopp tók við Dortmund árið 2008 og liðið endaði í sjötta sæti þýsku deildarinnar á hans fyrsta tímabili. Liðið varð svo meistari vorið 2011 og vann svo tvöfalt í fyrsta sinn í sögu félagsins á síðasta tímabili.

Dortmund setti einnig stigamet í Þýskalandi í fyrra en liðið fékk alls 81 stig.

„Liverpool þarf tíma til að komast aftur á þann stall sem félagið vill vera á. Þegar Klopp tók við Dortmund hafði hann ekki leikmannahóp sem var nægilega góður til að verða meistari," sagði Sahin í samtali við enska fjölmiðla.

„Klopp breytti miklu og það tók tíma að fá breytingarnar allar í gegn. Hann hélt sínu striki og var þolinmóður. Félagið gaf honum tíma og þetta fór allt saman vel á endanum."

„Klopp tengist leikmönnum sínum vel og mér finnst Brendan svipaður á þann máta. Hann hafði mikil áhrif á þá ákvörðun mína að koma hingað."

Liverpool er sem stendur í fjórtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið hefur aðeins unnið einn af fyrstu sjö leikjum sínum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×